Algengar spurningar og svör

Hvert er markmið rannsóknarinnar?

Aðalmarkmið rannsóknarinnar er að greina þá margvíslegu þætti sem móta íslenskan garðyrkjuiðnað, með það að markmiði að auka þekkingu á iðngreininni til handa garðyrkjubændum, stjórnvöldum og í þágu fræðasamfélagsins.

Rannsóknin mun leitast við að varpa ljósi á fjölbreytta vaxtarmöguleika iðnaðarins. Sjónum verður beint að tækifærum til gæðaþróunar innlendrar framleiðslu sem og aðferða til að auka fjölbreytni grænmetis- og ávaxtategunda á íslenskum markaði. Tilgangur rannsóknarinnar er jafnframt að koma auga á hindranir sem standa í vegi fyrir auknum vexti, gæðaþróun eða fjölbreytni íslenskrar garðyrkjuframleiðslu.

Væntingar standa til að rannsóknarniðurstöður auki þekkingu á ræktunarkerfum og ræktunaraðferðum sem gefast vel á Íslandi fyrir mismunandi grænmetis- og ávaxtategundir sem og þekkingu á markaðsaðferðum sem vænlegar eru til árangurs. Niðurstöðurnar munu vonandi varpa ljósi á þá þætti sem liggja til grundvallar ákvarðanatöku garðyrkjubænda og stefnumótunaraðila iðngreinarinnar á Íslandi.

Mikilvægur þáttur rannsóknarinnar felst einnig í því að rannsaka hvaða aðferðir íslenskrar garðyrkjuframleiðslu stuðla best að sjálfbærni íslenskra ræktunarvistkera, sjálfbærni dreifðra byggða og tryggri afkomu garðyrkjubænda og annarra starfsfólks iðngreinarinnar.

Rannsóknin mun að endingu greina fjölbreyttar aðferðir íslenskrar garðyrkju með það að markmiði að varpa ljósi á leiðir sem líklegar eru til árangurs fyrir bændur sem eru að stíga sín fyrstu skref í ræktun, sérstaklega með tilliti til sjálfbærni í efnahagslegu og umhverfislegu tilliti.

Hvaða nálgun liggur til grundvallar rannsóknarverkefninu?

Um er að ræða landfræðilega greiningu á íslenskri garðyrkjuframleiðslu.

Landfræðileg nálgun leitast við að skilja samband garðyrkjubænda við umhverfi sitt. Rannsóknin mun greina hvernig bændur móta bæði félagslegt og líffræðilegt umhverfi sitt og hvernig samfélagslegir og umhverfislegir þættir hafa á móti áhrif á bændur og ákvarðanir þeirra um framleiðslu og sölu á grænmeti og ávöxtum. Sjónum er einnig beint að því hvernig samspil bænda við umhverfi sitt hefur áhrif á ákvarðanatöku á sviði stjórnsýslunnar. 

Rannsóknin nálgast einnig viðföng sín frjá sjónarhóli matvælakerfa (e. food systems) en það er þverfagleg nálgun sem rannsakar líffræðilega, félagslega, pólitíska og hagfræðilega þætti íslenskrar grænmetisframleiðslu og hvernig hún er staðsett innan alþjóðlegs samhengis. 

Matvælakerfisnálgunin styðst við fjölþættar rannsóknaraðferðir. Notast verður við spurningalista, viðtöl verða tekin, heimsóknir á býli skipulagðar, greiningar gerðar á ræktunarkerfum, jarðvegsprófanir framkvæmdar og landslagskort unnin.

Hvenær mun upplýsingaöflun fara fram? 

Upplýsingaöflun fyrir þetta verkefni hófst árið 2019 og verður henni lokið árið 2022. 

Hverjum er boðin þátttaka í rannsókninni? 

Rannsóknin byggir á upplýsingum frá starfandi garðyrkjubændum. Allir garðyrkjubændur á Íslandi sem rækta grænmeti eða ávexti eru beðnir að taka þátt í rannsókninni, nema þeir sem rækta eingöngu kartöflur eða rófur. 

Rannsóknarteymið mun hafa samband við alla garðyrkjubændur á Íslandi að fyrra bragði. Ef þú hefur áhuga á að vera með í rannsókninni en hefur ekki heyrt frá rannsóknarteyminu, vinsamlega hafðu samband við teymið með því að smella hér.

Rannsóknin byggir einnig á gögnum sem safnað verður hjá eftirfarandi hópum:

  1. innlendum áburðarframleiðendum

  2. heildsölum og pökkunar- og dreifingaraðilum

  3. smásöluaðilum, veitingastöðum og neytendum sem leggja áherslu á að kaupa íslenskt grænmeti

Ef þú tilheyrir einhverjum af ofantöldum hópum og hefur áhuga á að taka þátt í rannsókninni viljum við gjarnan heyra frá þér. Lestu meira um þátttöku hér.

Hvað verða garðyrkjubændur beðnir um að gera?

Rannsóknarteymið vinnur að því að hafa samband við alla garðyrkjubændur á Íslandi. Þeir bændur sem hafa ekki heyrt frá teyminu en hafa áhuga á að taka þátt í rannsókninni mega vinsamlega hafa samband við rannsóknarteymið til að ganga úr skugga um þeir uppfylli skilyrði fyrir þáttöku og séu á þátttökulistanum.

Þátttakendur í rannsókninni verða beðnir um að fylla út rafræna spurningakönnun á íslensku eða ensku. Þátttakendur kunna svo að verða boðaðir í viðtal sem verður að miklu leyti byggt á svörum þeirra í spurningakönnuninni. Viðtölin munu fara fram á heimili þátttakenda eða í gegnum fjarfundabúnað, eftir því sem hentar hverjum þátttakenda best og í samræmi við sóttvarnir á hverju tímabili. Viðtölin munu fara fram á ensku með aðstoð íslensks túlks. Þátttakendum í rannsókninni verður einnig boðið í garðyrkjuvinnusmiðju á Suðurlandi sumarið 2022. 

Hvernig verða persónuupplýsingarnar mínar og svörin mín meðhöndluð?

Aðalrannsakandi rannsóknarinnar hefur aðgang að svörum þínum og er hann bundinn ströngum skilyrðum um trúnað og meðferð rannsóknarganga. Í öllum birtum niðurstöðum rannsóknarinnar verður einungis stuðst við dulkóðuð svör eða samansöfn gagna. Það þýðir að svör þín verða aldrei rakin til þín persónulega í neinum birtum gögnum á vegum rannsóknarinnar.

Einnig verða öll svör þátttakenda dulkóðuð og geymd aðskilin frá persónuupplýsingum þátttakenda við varðveislu gagnanna. Þessir verkferlar eru skilyrði í öllum rannsóknum sem stundaðar eru á vegum Kaliforníuháskóla, Davis. Nánari upplýsingar má finna í samþykkisyfirlýsingunni sem þátttakendur undirrita áður en þátttaka í rannsókn fer fram.

Er einhver ávinningur af þátttöku í rannsókninni?

Það er enginn beinn ávinningur af því að taka þátt í rannsókninni. Hins vegar standa væntingar til þess að rannsóknin muni koma til með bæta hag grænmetisbænda á Íslandi. Rannsóknarniðurstöðum verður miðlað í ræðu og riti á ýmsum vettvangi; til bænda, til fræðasamfélagsins, til aðila innan innlendrar og alþjóðlegrar stjórnsýslu og til almennings.

Rannsóknin mun vonandi einnig nýtast neytendum innlends grænmetis og ávaxta með því að varpa ljósi á vaxtarmöguleika íslenskrar gaðyrkjuframleiðslu og aukinnar fjölbreytni hennar. Rannsóknarniðurstöðum verður miðlað til aðila í stjórnsýslunni og munu vonandi nýtast við stefnumótun og fjármögnun greinarinnar á opinberum vettvangi sem og ákvarðanatöku um annan stuðning við garðyrkjubændur.

Með því að leggja áherslu á að greina hvaða ræktunarleiðir eru líklegar til árangurs munu rannsóknarniðurstöður vonandi einnig nýtast nýjum garðyrkjubændum sem eru að stíga sín fyrstu skref í ræktun.

Allar rannsóknarniðurstöður verða birtar bæði á ensku og á íslensku og verða gerðar aðgengilegar rannsóknarþátttakendum. Þátttakendum í rannsókninni verður einnig boðið í garðyrkjuvinnusmiðju á Suðurlandi sumarið 2022 þar sem frumniðurstöður verða kynntar.

Hvar verða niðurstöður rannsóknarinnar birtar?

Rannsóknarniðurstöður verða birtar í greinum sem ritaðar verða á ensku og verða birtar í ritrýndum fagtímaritum á árunum 2023 til 2025. Niðurstöðurnar verða einnig gefnar út á bókaformi á íslensku og á ensku.

Opinberar kynningar á rannsóknarverkefninu verða haldnar á Íslandi á ýmsum vettvangi fyrir garðyrkjubændur, aðila innan stjórnsýslunnar, á vegum Háskóla Íslands og á meðal almennings.

Hver framkvæmir rannsóknina?

Nicholas Ian Robinson er aðalhöfundur rannsóknarinnar. Niðurstöður rannsóknarinnar munu birtast í doktorsverkefni hans. Hann er Phd nemi í Landfræði við Kaliforníuháskóla, Davis og gestarannsakandi við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands. 

Nicholas er einnig garðyrkjubóndi. Síðastliðin 10 ár hefur hann ræktað fjölda grænmetistegunda til sölu fyrir íslenskan markað, stundað tilraunaræktanir og unnið að þróun ræktunarkerfa  í Gróðrarstöðinni Reykjalundi í Grímsnesi. Hann hefur gert tilraunir með yfir 100 afbrigði með það að markmiði að kynna nýtt grænmeti fyrir íslenskan markað sem og nýjar ræktunar- og markaðsaðferðir fyrir iðngreinina.

Netfang: nirobinson [hjá] ucdavis.edu

Símanúmer: +354 663 5906 (enska)

Nánari upplýsingar um rannsóknarteymið má finna hér

Hver styrkir rannsóknina?

Rannsóknarverkefnið hefur hlotið styrk frá eftirfarandi styrktaraðilum:

Deild framhaldsnáms í landfræði, Kaliforníuháskóli, Davis

Deild plöntuvísinda, Kaliforníuháskóli, Davis

Líf- og umhverfisvísindadeild, Háskóli Íslands

Fulbright stofnunin á Íslandi

Sjóður stofnunar Leifs Eiríkssonar

American Scandinavian Foundation

Atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið